Texti: Phil. Professor Eyjólfur Kjalar Emilsson, 2002.

Hver blár ferningur á gólfinu svarar til andlitsmyndar af fólki úr móðurætt Borghildar, lifandi og látnu, á veggnum fyrir ofan. Ef við ímyndum okkur að ferningarnir kæmu í stað ljósmyndanna á veggnum, myndi blasa við okkur stór himinblár flötur. Hvað væri hann? Fyrir okkur sem höfum séð verkið væri hann alltént meira en bara blár flötur, því við vissum af andlitunum á bak við og gætum sem hægast ímyndað okkur enn fleiri andlit hulin að baki blámans. Er þá blái flöturinn sjálf Blámóðan milka, tíminn sem keppist við að má út allt og alla? Og eru andlitin þá hetjuleg tilraun Borghildar til að veita hinni eljusömu gleymsku viðnám? Eitthvað því um líkt má sjálfsagt segja um fjölskyldualbúm almennt. Og kannski má líta þetta verk einfaldlega sem úrdrátt úr fjölskyldualbúmi, upphafið fjölskyldualbúm.

Og þó ekki bara það. Borghildur er ekki bara að þreyta glímu við gleymskuna heldur líka tímann sjálfan. Því hvað er tími? "Meðan enginn spyr mig veit ég það vel; vilji ég skýra það út fyrir einhverjum sem spyr, veit ég það ekki lengur." sagði heilagur Ágústínus. Það er kunnara en frá þurfi að segja að við mannfólkið erum tímanlegar verur: Við lifum í núinu sem sífellt rennur úr greipum okkar, og hið liðna og hið ókomna er ekki. Samt sem áður læðist oft að okkur sá grunur að fortíðin og framtíðin séu þarna, jafn raunveruleg og hið viðsjála nú. Þegar við horfum á útsýnið af Kambabrún eða lítum inn á kaffihús í Reykjavík, nemum við ótal hluti í einni andrá. Við sjáum í sjónhendingu hvernig þeir tengjast í rúminu. Hið tímanlega er ekki svona í reynslu okkar. En þó má reyna, og einmitt það gæti verið það sem Borghildur freistar að gera með þessu verki. Þar er hún í góðum félagsskap, því felst ekki listin í því að sýna það sem ekki verður sýnt eða segja það sem ekki verðir sagt?