Texti: Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt og kennari í arkitektúr, Mál og Menning, maí 2002

Lestur og túlkun sjónræns áreitis
Kafli úr greininni ”Landslag hugans – staðir og staðleysur”
í tímariti Máls og Menningar, 2.tbl. 63.árg. maí 2002
eftir Guju Dögg Hauksdóttur (f. 1965)


Innsetningin „náttúra“ í Skerjafirðinum í Reykjavík (höfundur Borghildur Óskarsdóttir) vísar á undirfurðulegan hátt í þessa tvöföldu nálgun á því sem umlykur okkur. Sjálfir stafirnir í verkinu eiga uppruna sinn í einu „sjömílnaskrefinu“ í þróunarsögu mannsins: stafrófinu - þar sem miðlun efnis var allt í einu möguleg í ritun tákna, sem gerði fólki kleift að safna upplýsingum og geyma þær í áður óþekktum mæli, þó fjarlægðin við efnið sjálft ykist kannski að sama skapi. Stafirnir í verkinu eru steyptir í nákvæm mót, efnið er eitt hugleiknasta byggingarefni Íslendinga: steypa, sem er tiltölulega nútímalegt efni, en leturgerðin er gömul, hún rekur ættir sínar til Rómar við fæðingu Krists. Orðsins hljóðan er eins og merkimiði á sandinum, eða þurfum við orðið þess konar leiðbeiningar til að rata? Þessi einfaldi skúlptúr á svartri strönd yngsta lands Evrópu er þannig ekki allur þar sem hann í fyrstu er séður.
Sjórinn lætur sig þetta allt litlu varða; flóð og fjara hafa sinn gang og eru þegar farin að riðla upprunalegri teinréttri niðursetningu stafanna, en þyngd þeirra og lögun trufla skrið sandsins fram og til baka, máttlítið viðnám sem hlýtur að lúta í lægra haldi fyrr eða síðar.
Stígurinn meðfram verkinu á ströndinni er ekki gamall. Hann er hluti af manngerðum framkvæmdum sem auðvelda okkur mannfólkinu aðgang að hreinni náttúrunni. Hinum megin við hann hefur miklu verið til kostað að temja sömu náttúru undir vandaða steypu samgöngumannvirkja. Ísland er að sönnu land andstæðnanna!
4
Mynd: Guja Dögg Hauksdóttir.