Texti: Inga María Leifsdóttir. Morgunblaðið - Menningarblað/Lesbók, 26. ágúst, 2000
torg-umsögn
LISTASAFN ASÍ er bjart og fallegt hús, þar sem mörg meistaraverk Ásmundar Sveinssonar urðu til. Það hýsir nú kosmísk listaverk Borghildar Óskarsdóttur á sýningu sem verður opnuð í dag og stendur til 10. september. "Torg og tómir kassar" er yfirskrift sýningarinnar, þar sem meðal annars er velt upp spurningum um tilvist heimsins. Spurningarnar koma annars vegar fram í listaverkum Borghildar og hins vegar í spurningum sem hún lagði fram á Vísindavef Háskólans, og svörin sem fengust við þeim.
Heiti sýningarinnar vísar beint í þau verk sem eru til sýnis. Í Ásmundarsal, á efri hæð hússins, er stórt torg úr gleri og pappír. Á neðri hæð hússins, í Gryfju, eru tómir trékassar, sem ætlaðir eru til geymslu á verkinu.
En hver er hugmyndin á bak við þetta allt saman? "Myndin á pappírnum er mynd af þverskurði jarðarinnar eins og mér skilst að hann sé. Glerplötur liggja þar ofan á," útskýrir Borghildur. "Mig langaði til að vinna á einhvern hátt með jörðina og svo kom þessi hugmynd um þverskurðinn fljótlega upp. Það er líkt og með alla hluti sem vekja áhuga manns, að maður hefur hug á því að komast undir yfirborðið og helst að kjarnanum."
Eftir að Borghildur var byrjuð að vinna verkið rakst hún á Vísindavefinn og svör hans og spurningar í Morgunblaðinu. Hún ákvað að leggja þar inn spurningar í sambandi við verkið. "Mér fannst þetta alveg frábært framtak, jafnvel áður en mér datt sjálfri í hug að ég gæti notað hann. Þarna getur hver sem er, börn og fullorðnir, lærðir sem ólærðir, lagt inn spurningar og fengið hávísindaleg svör. Í tengslum við vinnslu verksins skoðaði ég bækur og annað í sambandi við jörðina og það eru alveg magnaðir litir sem felast í öllum þessum eldi. Þannig að ég ákvað að spyrja spurninga á Vísindavefnum um hvað væri vitað um þessa liti og fékk svo skemmtileg og frábær svör. Eins spurði ég hvað jarðskorpan væri þykk og fékk allskonar upplýsingar um að hún væri misþykk og svo framvegis. Ég hef verið að vinna mitt verk sem myndlistarmaður, en svo fæ ég frá vísindamönnum hárnákvæmar upplýsingar um það sem þeir vita um þetta efni."
Spurningarnar og svörin verða til sýnis hjá verkunum og er þannig teflt saman listrænni sýn á efnið og vísindalegri þekkingu á því. "Nýlega ákvað ég að spyrja tveggja spurninga og spyrja eins og sá sem ekkert veit, eins og barn eða eins og geimvera sem ekkert þekkir til jarðarinnar. Ég spurði þá spurninga um hver jörðin væri og hvar hún væri. Svörin sem ég fékk voru mjög skýr og fín." Verkunum breytti hún ekki við að fá hinar nákvæmu niðurstöður. "Þetta er frekar eins og viðbót við verkin. Mér finnst gaman að leggja þetta hlið við hlið. Svo eru fleiri víddir í þessu, til dæmis að torg og tómir kassar er eitthvað mjög hverdagslegt sem við þekkjum öll. Torgið og þverskurður jarðarinnar, er þá bæði nokkuð sem við þekkjum mjög vel og einnig eitthvað sem við þekkjum í raun ekki, því við vitum auðvitað ekki hvernig þverskurður jarðarinnar er."
Borghildur smíðaði kassa utan um verkið og eru þeir einnig til sýnis á sýningunni. "Það er alltaf vandamál hjá myndlistarmönnum hvernig geyma á listaverk, þannig að ég smíðaði kassa sem passa nákvæmlega utan um glerplöturnar sem mynda torgið og einn stóran utan um aðra hluta verksins, það er að segja jörðina," segir Borghildur. "Undanfarin ár hef ég unnið mikið með innihald og form og þetta er nokkurs konar framhald á því. Torgið er innihaldið og kassarnir eru ytra formið." Að sögn hefur Borghildur oft notað kassa sem hún geymir verkin í sem hluta af listaverkinu, og er þetta því ekki í fyrsta sinn sem hún vinnur á þennan hátt. Meðan á vinnslu verksins stóð tók hún þá ákvörðun að hafa kassana líka á sýningunni. "Ég málaði þá bláa að innan, sem vísar í bláan himingeiminn, og kassarnir eru tómir," útskýrir hún. "Þó að vísindin viti margt um þessi efni, er ýmislegt órannsakað líka."
Torgið-gestir

visinda-3