Texti: Halldór Björn Runólfsson listfræðingur. Morgunblaðið, 1. sept. 2000.

Heimurinn okkar

BLÖNDUÐ TÆKNI - BORGHILDUR ÓSKARSDÓTTIR
Listasafn ASÍ, Ásmundarsal, Freyjugötu. Til 10. september.

BORGHILDUR Óskarsdóttir nýtir bæði stóra salinn í Listasafni ASÍ og gryfjuna - hornherbergið í suðausturhluta hússins - undir eitt stórt verk sem þekur stóran hluta gólfsins, auk þess sem hún sýnir kassana utan af verkinu. Um er að ræða málverk af jörðinni eins og hún lítur út ef hún væri hlutuð í tvennt eins og glóaldin. Þannig er málverkið hringmyndað og gefur til kynna hlutföll hinna ýmsu laga í iðrum plánetunnar. Eflaust verður ýmsum brugðið við að sjá hvílíkt skæni ysta lagið er; skorpan sem við byggjum. Það er varla að undra þótt stundum gangi eitthvað á líkt því sem reið yfir Suðurland í júní.
Málverk Borghildar af hnettinum liggur undir glerplötum sem mynda ferning, tólf sinnum tólf að tölu. Glerplötunum er haldið saman af fínlegum ramma úr plexígleri og hver plata er umlukin plexílengjum.
Þannig verður til nokkurs konar glertorg sem umlykur málverkið og eykur mjög áhrifamátt heildarinnar. Á veggnum við glertorgið eru upplýsingar um jörðina, fengnar af Vísindavef Háskóla Íslands. Þar er að finna spurningar listakonunnar um eðli jarðarinnar, eða: Hver er jörðin? Fullkomnun verksins er að leita í gryfjunni, þar sem faglega smíðaðir kassar, blámálaðir að innan, fylla gólfflötinn. Ofan í þá raðast verkið í heild sinni, því málverkið af jörðinni má taka sundur í hlutum og glerplöturnar 144 falla snyrtilega í tólf af kössunum. Þannig má skilja yfirskrift sýningarinnar - Torg og tómir kassar - þar sem verkin í báðum sölum hússins hafa ákveðið tímabundið sýningargildi og kallast á sem ein samfella.
Þannig má sjá hvernig Borghildur tekst á við tíma og víddir. Hún kannar viðbrögð okkar við listaverki sem er hlaðið spurningum og svörum í formi upplýsinga því þetta er nú eitt sinn heimurinn okkar, sú veröld sem skiptir okkur öllu máli.
Um leið berjast um athygli okkar hinn sýnilegi hluti listaverksins - hvernig það er gert; málað; hlutað sundur og fellt saman í eina heild - og hin tilvísandi áhrif þess. Hvor hlutinn er mikilvægari; hvor hlutinn er áhrifameiri? Borghildur tekst á við frábærar vangaveltur um listaverkið og takmörk þess í tíma og rúmi. Í bakgrunni liggja allir okkar þankar tengdir jörðinni; takmörkum hennar; möguleikum og vanda. Raunar fjallar verk hennar um þá eilífðarspurn fagurfræðinga hvort listaverkið hafi gildi einungis tengt efniviði þess og formi, eða hvort efni og ásýnd séu einungis ómerkilegar ábendingar til okkar um að halda áfram að botna það sem fyrir augu ber og verða þannig fyrir gagngerum áhrifum af hinum áþreifanlega hluta fyrirbærisins án þess að nema staðar við takmörk þess.
Það er með fullkomnu æðruleysi sem Borghildur setur fram þessar vel til fundnu spurningar og fylgir þeim eftir með mikilli fágun og frábæru listfengi. Er hægt að biðja um meira? Það er vert að skoða alla þætti þessarar einföldu skipunar hennar og sjá hve ótölulegum fjölda áleitinna spurninga hún veltir upp.
bláir ka
torg-pökkun
Í lok sýningar er torgið tekið sundur í einingar sínar og pakkað ofaní bláu kassana. Verkið er þá tilbúið í næsta ferðalag.