aítexti
Texti: Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, DV, Mánudagur 4. Sept. 2000

Óravíddir og ofurstærðir (hluti):
...
Sýningin er tiltölulega einföld í sniðum en fjallar um alheiminn, hvorki meira né minna, eða réttara sagt endimörk þekkingar okkar á honum, en eins og menn vita er tæplega hægt að segja neitt af viti um alheiminn án þess að hafa víddirnar með í jöfnunni.
Fyrsta skref Borghildar var að virkja hina nýju vídd Veraldarvefsins og senda spurningar um samsetningu jarðarinnar, litróf hennar hið innra, staðsetningu hennar í alheiminum o.s.fr. til þeirra ágætu manna sem halda úti Vísindavef Háskóla Íslands. Greinargóð svör þeirra urðu síðan hluti af hugmyndabanka listakonunnar og jafnframt af sjálfri sýningunni, og hygg ég að þetta sé í fyrsta sinn sem Veraldarvefurinn er notaður með nákvæmlega þessum hætti. Um leið kallast vídd vefsins, þar sem þessar upplýsingar “urðu til”, á við aðrar víddir sem Borghildur leitast við að gera sýnilegar í verki sínu.
...
En í þessu verki Borghildar, eins og raunar í flestu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur um dagana, er aukinheldur að finna ljóðræna aðferðafræði sem erfitt er að lýsa og skýra, því hún snýst um tilfinningaleg blæbrigði fremur en rökhugsun eða skapandi afbökun rökhugsunar. Að gera úr jarðkringlunni torg og bjóða okkur að standa við miðbik hennar í táknrænum skilningi er innan marka skilnings okkar flestra. En að gera hinni táknrænu jarðkringlu sérstaka kassa með óravíddum innbyggðum eins og Borghildur gerir – kassarnir eru málaðir himinbláir að innan – til að hægt sé að flytja hana á milli í pörtum, flokkast undir ófyrirsjáanleg ljóðræn undur, það sem Joyce hefði sennilega kallað “epifaníu”. Mér verður hugsað til stjörnunnar sem Hreinn Friðfinnsson bjó til með því einu að brjóta saman bláa pappírsörk.
...