FRÍSTUNDAMÁLARINN Ragnar Bjarnason
Sýning á málverkum og teikningum Ragnars Bjarnasonar á Verkstæðinu, Óðinsgötu 13, Reykjavík, í desember 2004.

Úr bókinni Frístundamálarinn:
Fyrir nokkrum árum vaknað hjá mér löngun til að koma upp sýningu á
myndverkum Ragnars, föðurbróður míns, og ég bað hann um að segja
mér eitthvað um málverkin, sem héngu á veggjum heimilis hans.
Í ljós kom að hann hafði frá mörgu að segja og málverkin urðu
einskonar miðill, sem opnaði leið inn í aðra heima.
Ragnar talaði ekki bara um myndirnar, sem hugmyndir eða hluti, hann
sagði líka frá ýmsu sem tengdist landslagi og sögu myndefnisins,
honum var ofarlega í huga sá löngu liðni tími, þegar hann vann
myndirnar, og sagði gjarnan “... en nú er þarna allt öðruvísi ... ”
Persónusaga Ragnars varð einnig hluti frásagnarinnar.
Texti: Borghildur Óskarsdóttir 2005.



Ragnaropnun
Frá opnun sýningarinnar, 5. des. 2004. Ragnar sitjandi (f. 1913).
sýning
Gestir á opnun

Nokkur verka Ragnars:
sölvahamar
Sleggjubeina og Sölvahamar, 98x72cm. Máluð 1942
Um myndina segir Ragnar:
“Áður en bílvegur var lagður um Snæfellsnesið þá var svona gata með ströndinni og uppá bjargið meðfram hrauninu en gatan er óljós núna því það er löngu hætt að nota hana. Þú sérð, það eru menn á hestum að fara yfir ána Sleggjubeinu, en núna liggur vegurinn bak við hraunið. Fjallið er Stapafell og fuglabjargið er Sölvahamar, 30 metra hátt bjarg.
Það var þannig að Bárður Snæfellsás kom hingað frá norður Noregi eða Finnlandi og reisti sér bú á Snæfellsnesi. Elsta dóttir hans og mikið uppáhald var Helga, en bróðir Bárðar átti synina Rauðfeld og Sölva.
... en við vitum auðvitað að strákar geta verið prakkarar, ekki síst þegar stelpur eru annars vegar. Strákarnir og Helga voru að leika sér að hlaupa á milli jaka þarna við ströndina, sumir voru landfastir en aðrir lausir. Þegar Helga var komin út á einn lausa jakann, þá gerðu strákarnir það í prakkaraskap að ýta á jakann. En þá tók straumurinn við og stormurinn og Helga hverfur þarna á jakanum. Bárður varð ofsalega reiður. Heiftin var svo mikil að hann tók piltana sinn undir hvora hönd, fór með Rauðfeld og kastar honum í gjá, sem síðan heitir Rauðfeldsgjá, fór svo með Sölva og kastar honum fyrir björg og heita þau síðan Sölvahamar. En Helga komst til Grænlands ... og auðvitað hefur þetta vel getað gerst ... en hún kom svo aftur hingað til lands og var mikill skörungur...“

Úr bókinni Frístundamálarinn Ragnar Bjarnason.
viðey
Viðey, 103x71cm. Máluð 1941
Um þessa mynd segir Ragnar:
"Ég vann í Kleppsholtinu á þessum árum, fékk þarna vinnu eina viku í mánuði ... atvinnubótavinna hjá bænum. Þarna vann ég við vegabætur og stundum vorum við að taka saman grjót sem átti að nota í ýmislegt, eins og steypu eða húsgrunna. Þá fékk ég einu sinni þá hugmynd að mála útsýnið þarna.
Kleppsholtið er hér næst á myndinni, og við sjáum yfir í Viðey og Esjuna.
Mikil byggð var í Viðey sem nú er horfin ...
Þegar ég málaði myndina þá voru bryggjurnar farnar.
... ég vann í Viðey við uppskipun á fiski, einhvern tímann eftir 1930, löngu áður en ég málaði þessa mynd. Þá var þar heilmikil útgerð, gerðir út 5 eða 6 togarar og þarna voru miklar hafskipabryggjur ... og undir barðinu voru fiskverkunarhús. Það voru kannski tveir eða þrír togarar í einu að losa ... og það komu bæði salt og kolaskip. Fiskurinn var þurkaður og full unninn í Viðey ..."

Úr bókinni Frístundamálarinn Ragnar Bjarnason.

bjarni.2
Bjarni bróðir Ragnars, teikn. 1938-40
ragnar.2
Róbert bróðir Ragnars, teikn. 1938-40
Bókin
Í mars 2005 gaf ég út út bók um Ragnar, myndverkin hans og æviágripi.
Auk málverka og teikninga Ragnars eru í bókinni margar ljósmyndir sem hann tók á árunum 1930-50.
Bókin er 86 blaðsíður og heitir Frístundamálarinn Ragnar Bjarnason.