Tillaga, ásamt staðarvali, í samkeppni um aldamótaverk á Akureyri.
(Verkið skyldi vísa til þess að 1000 ár voru liðin frá kristnitöku á Íslandi og landafundum Norður Ameríku.)
TVÖ TORG (1 af 5 verkum sem valin voru til frekari útfærslu. Ekki byggt.)
tvö torg2
Staður: Stórhólmi.
Gott útsýni er út Eyafjörð, til Akureyrar, Kaldbaks og til allra átta.
tvötorg2
Verkið samanstendur af tveimur torgum, öðru ferhyrndu hinu hringlaga og stíg þar á milli. Á miðjum torgunum er sinn hvor skúlptúrinn: gluggi og dyr.
Þessum þekktu byggingarformum er plantað út í náttúruna, þar sem þau eru laus við öll fyrri gildi, en gefa nýjum hugmyndum farveg.
Gluggi (krossgluggi) og dyr vísa hér til hugmynda og athafna mannsins sem leiddu til nýrra siða og landafunda fyrir 1000 árum síðan.
staðurinn
Staðarval:
Staðurinn er valinn með hliðsjón af því hve miðsvæðis hann er í landslagi Eyjafjarðar. Verkið fer vel í ósnortinni náttúru, hugsað á Stórhólma, rétt austan við brúna þar sem gamli þjóðvegurinn liggur yfir fjörðinn, í umhverfi þar sem sviðið er opið og jörð, vatn og himinn eru í aðalhlutverki.
Segja má að Stórhólmi sé miðpunktur Eyjafjarðar, legu sinnar vegna og einnig sögulega séð. Í Landnámu segir að í Þórunnarey hafi Þorbjörg hólmasól “fyrsti Eyfirðingurinn” fæðst. Og talið er líklegt að Þórunnarey sé þar sem nú er Stórhólmi. Verkið liggur í stefnu S-N og er “kristnitökutorgið” nær þegar komið er frá vestri eftir veginum. Fólk mun skoða verkið og lesa það, ganga um verkið og í gegnum það og fólk mun horfa frá verkinu og á umhverfið, í nálægð og fjarlægð. Eins mun verkið sjást víða frá.
Bygging verksins ætti ekki að valda skaða á landinu, en aftur á móti mun það styðja við Stórhólma sem útivistarsvæði fyrir Akureyringa og gesti þeirra. Auk þess má benda á að með staðsetningu verksins fær Kjarnaskógur skemmtilega tengingu við Stórhólma. Allur umgangur við og um verkið verður auðveldur fyrir fólk með barnavagna og fyrir þá sem ferðast í hjólastólum.