Texti: Bragi Ásgeirsson. Morgunblaðið, Menningarlíf 4. febrúar, 1997 -

Íslendingar MYNDLIST Ásmundarsalur
SKÚLPTÚR / HUGMYND
Borghildur Óskarsdóttir.

…Langt er síðan Borghildur Óskarsdóttir tók stefnuna á hreinan skúlptúr, og innsetningar í bland, þar sem klár form ómengaðrar mótunar réðu ferðinni og þeim raðað á ýmsa vegu í tilfallandi rými. Þessu heldur hún ótrauð áfram, en nú eru vísanirnar nokkuð aðrar í þá veru að hún leggur út af frásagnarlegu myndefni sem skarar skjaldarmerki ríkisins, sem Tryggvi Magnússon teiknaði lýðveldisárið 1944. Jafnframt spurningunni: "Hverjir eru þessir Íslendingar?" ennfremur upphafinu að skáldverkinu "Fegurð himinsins" eftir Halldór Laxness, sem ritað var 10. janúar 194O: "Þar sem jökullinn ber við himininn hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar allri kröfu." Einneigin fylgir listakonan framkvæmdinni úr hlaði með því að vísa til Heimskringlu og hluta hennar er fjallar um Harald Gormsson konung Dana, er bauð kunnugum manni að fara hamförum til Íslands og freista, hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvals líki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru full af landvéttum, sumt stórt en sumt smátt . . . Mun kaflinn hafa verið kveikjan og innblásturinn að rissi Tryggva Magnússonar.…Þetta er afar vel mótaður og lifandi gjörningur, fjarri þó einungis fyrir frásagnarlega þáttinn, enn síður að rýnirinn telst áróðursmaður sérgildra sem hlutvaktra myndefna er skara land og sögu. Heldur einfaldlega vegna verklagsins og útfærslunnar í heild sinni. Sterk og afmörkuð innsetning er fellur vel að umhverfi sínu. Rýmið sjálft saga út af fyrir sig, því Ásmundarsalur hefur aldrei viðkunnanlegri verið, einkum er hið hlutlausa trégólf saga út af fyrir sig. Menn ímyndi sér bara hvernig gljáandi parkettgólf, stásslegur marmari eða hrjúfleiki á borð við gólfið á Sólon Islandus hefði dregið úr hrifmætti innsetningarinnar.Í stuttu máli, hrein og tær innsetning sem skilar sér til skoðandans, vekur til umhugsunar og kemur honum við.