Er okkar vænst?
Móar og mýrar á sunnanverðu landinu. Bárujárnshús á stangli í Flóanum, símastaurar og gamlar girðingar. Grasivaxnar þústir og rústir og sandorpin holt austan megin Þjórsár. Býr þetta svæði yfir einhverju sem vert er að segja frá? Á einhver von á okkur hér? Á einhver stefnumót við okkur? Landslagið hérna og húsin og þústirnar segja sína sögu en það er miklu meira í húfi. Í óprentuðum endurminningum Finnboga Höskuldssonar, sem var fæddur í Stóra-Klofa á Landi 1870, segir að eftir sumarmál 1882 hafi komið svo mikið harðindakast með sandbyl að nær allar skepnurnar drápust og foreldrar hans urðu að bregða búi. Þau settust að á eyðibýlinu Skarðsseli en nokkrum árum síðar var ekki búandi þar lengur vegna sandfoks. Þá voru bæjarhúsin flutt út að Þjórsá þar sem ekkert sandfok var. Sá bær hrundi í suðurlandsskjálftanum 1896, þremur árum eftir að hann var fluttur. Það eyðist allt og gleymist og hverfur.
Í maí 1918 var heimili Ragnhildar Höskuldsdóttur (systur fyrrnefnds Finnboga) og Bjarna Bernharðssonar leyst upp og þau urðu að fara frá Hafnarfirði austur í Gaulverjabæjarhrepp í Flóa með börnin sín fimm. Fjölskyldan kom að Sléttabóli í Flóa og daginn eftir dreif að fólk til að sækja börnin. Óskar (6 ára) fór að Gegnishólum, Bjarni (2 ára) að Austur-Meðalholtum og Róbert (7 mánaða) að Hellum. Ragnar (5 ára) var fyrst um sinn á Sléttabóli en Arndís (3 ára) var hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka. Eftir að austur kom eignuðst Bjarni og Ragnhildur tvo drengi: Ólaf sem lést fjórtán ára og Bjarna sem lést þriggja ára. Þau reyndu að fá börnin til sín aftur, en sjálf höfðu þau orðið fyrir því að æskuheimili þeirra voru leyst upp.
Áttunda febrúar 1982 varð Óskar Bernhard Bjarnason, systursonur Finnboga, sjötugur. Í tilefni dagsins komu systkini Óskars í heimsókn, þau Ragnar, Arndís, Bjarni og Róbert. Til er ljósmynd af þeim þar sem þau sitja í sófa í stofunni að Hörðalandi 6 í Reykjavík. Tuttugu og fimm árum síðar eða í janúar 2007 setti Borghildur sér það verkefni að móta eina leirskál á dag og halda dagbók. Af dagbókinni má ráða að Óskar er komin á elliheimilið Grund en Borghildur heimsækir hann reglulega og fer með hann í göngutúra. Hún hefur áhyggjur af honum og hann er ósáttur við að vera “settur þarna niður”. Einn daginn þegar þau feðgin ganga venjulega hringinn við Grund spyr Óskar Borghildi hvað hún sé að fást við. Hún segist vera að undirbúa sýningu og spyr hvort honum sé ekki sama þótt hún notist við ættfræðitexta sem hann skrifaði niður fyrir 20 árum. Sögurnar á sýningunni eru reyndar margar fengnar úr viðtölum sem Borghildur hefur tekið við syskinin.
Borghildur efndi fyrir þremur árum til sýningar á málverkum föðurbróður síns, frístundamálarans Ragnars Bjarnasonar, og ári síðar gaf hún út bók með viðtölum við hann og litprentuðum málverkum. Fyrir fimm árum sýndi hún verkið “Mynstur í Móðurætt” í Hafnarhúsinu á sýningu á vegum Mynhöggvarafélags Reykjavíkur. Þar raðaði hún upp miklum fjölda af andlistsmyndum úr móðurætt sinni í stórt hringlaga form á bláan grunn. Í texta sem Eyjólfur Kjalar Emilsson heimspekingur skrifaði segir að Borghildur sé með þessu verki ekki aðeins að glíma við gleymskuna, heldur einnig tímann sjálfan sem alltaf vill renna úr greipum okkar. Sama má segja um sýninguna „Opnur“ nema hvað nú er komið að föðurættinni. En það mætti kannski bæta því við að hér kemur sterkar fram saga fólksins sem hefur búið í landinu.
Í frægum hugleiðingum um söguhugtakið skrifar Walter Benjamin að fortíðin beri með sér leynileg teikn sem leiði hana á vit endurlausnar sinnar. “Andar ekki um okkur blær af því sama lofti og lék um þær kynslóðir? Má ekki heyra í þeim röddum sem við ljáum eyra, bergmál þeirra radda sem nú eru þagnaðar?” Benjamin heldur því fram að okkar sé vænst á jörðinni af fyrri kynslóðum, að þær eigi leynilegt stefnumót við okkur. Og ef svo er, segir hann, má segja að okkur, eins og öllum öðrum kynslóðum, sé gefinn veikur messíanskur kraftur sem fortíðin á kröfu til. Benjamin er ekki að tala um yfirnáttúrulega hluti heldur kallar hann söguspeki sína sögulega efnishyggju með svolitlu blandi af guðfræði. Hann hefur einkum í huga hina nafnlausu, gleymdu og fátæku fortíð. Borghildur hefur opnað þessa fortíð á sinn máta og hún lætur Óríon, fegursta og glæsilegasta stjörnumerkið, lýsa hana upp. Þannig fær hún reisn og mikla vídd, endurlausn hefði Benjamin sagt. Að auki skilur Borghildur eftir sig sitt fingrafar á skálunum
Hjálmar Sveinsson